Athugið

Vegna tæknilegra örðugleika get ég tímabundið ,því miður, ekki svarað í síma né svarað tölvupósti, en facebook klikkar ekki, þar er hægt að senda skilaboð og þar get ég svarað fyrirspurnum .
Bestu kveðjur Ásta Dóra

Velkomin

á heimasíðu Gallerí Voff

Gallerí Voff Hundaskóli er brautryðjandi á Íslandi í athyglisþjálfun hunda og hefur verið starfræktur frá árinu 1991.


Í athyglisþjálfun er hundinum umbunað með matarverðlaunum fyrir það að fylgjast með og vinna fyrir eiganda sinn.


Eigandi hundaskólans, Ásta Dóra Ingadóttir, DBC (Dog Behaviour Consultant), hefur yfir 25 ára reynslu af hundatamningum og m.a. sérhæft sig í hegðunarvandamálum hunda, en það lærði hún hjá John Rogerson í The Northern Centre for Animal Behaviour á Englandi.


Hundaskólinn er starfræktur að Reykjahlíð í Mosfellsdal. Boðið er uppá grunnnámskeið, framhaldsnámskeið og einkatíma annarsvegar en allar dýratamningar fyrir kvikmyndir, leikhús og auglýsingar hinsvegar.


Símatími Gallerí Voff er alla virka daga nema föstudaga milli kl. 09:30 til 11:30. í síma 862-2006.


Ekki hika við að hringja ef þið hafið einhverjar spurningar, það er líka hægt að hafa samband á Facebook.


Fyrir hvað stendur Gallerí voff

Gallerí Voff -hundaskóli- hefur undanfarin 24 ár staðið fyrir það sama. Að menn og hundar lifi í sátt og samlyndi. Til að Hundar eigi langt og innihaldsríkt líf þurfa þeir að vera vel tamdir.


Góður og kurteis hundur er allstaðar velkominn, það er gaman að fara með hann út og taka hann með í bílinn þegar það þarf að skjótast eitthvað. Nágrannarnir vilja heilsa upp á hann og vinirnir vilja gjarnan koma í heimsókn. Góður hundur gerir ótrúlega mikið fyrir fjölskyldu sína bara með því að vera til, vera í góðu skapi og dilla rófunni.


Mig grunar að flestir fari af stað í hundahald með þessum væntingum.


En hundar temja sig ekki sjálfir og það þarf að leggja tíma og alúð í uppeldi hundsins.


Í Gallerí Voff lærir fólk að stjórna hundinum sínum, innan um aðra hunda og fólk þar sem er mikil truflun svo það reyni á báða aðila, hundarni fá nammiverðlaun fyrir það að taka þátt og einbeita sér að eigandanum og þannig er þeim leiðbeint í rétta átt.


Eigandinn lærir að verðlauna hundinn á réttum tíma og að nota verðlaun, hrós og falleg orð (að sýna tilfinningar) til að styrkja rétta hegðun. Ef hundar eru með yfirgang og dónaskap er eigandunum að sjálfsögðu kennt að stoppa það af.


Í fyrirlestrunum sem fylgja hverjum tíma er fjallað um þarfir og eðli hunda, hvernig þeir eru líkir okkur á sumum sviðum, en svo afskaplega ólíkir okkur á öðrum, sem gerir hundahaldið svolítið flókið fyrir marga.


Á meðan á fyrirlestrunum stendur, sofa hundarnir á gólfinu hjá okkur en þannig læra þeir að slappa af innanum allskonar hunda og læra að allir hundar eru góðir, sama hvernig þeir líta út.


Næstum því allir hundar eru þægir heima hjá sér í rólegheitunum en það er enginn mælikvarði á tamningu, Tamning felst í því að hundurinn hlusti á eiganda sinn í hvaða aðstæðum sem er, innan um fólk og önnur dýr og að hundurinn hlusti og hlýði þó hann gæti alveg hugsað sér að gera eitthvað allt annað :-)